14 Nóvember 2018 08:32
Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 4. – 10. nóvember.
Sunnudaginn 4. nóvember kl. 21.58 var bifreið ekið um Breiðholtsbraut, á ljósastaur gegnt Norðlingaholti og velt utan vegar. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 8. nóvember kl. 23.04 var bifreið ekið norður Vesturlandsveg og aftan á bifreið í Hvalfjarðargöngunum. Ökumaður aftari bifreiðarinnar hafði verið að stilla útvarpið áður en óhappið varð Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 10. nóvember. Kl. 6.45 var bifreið ekið vestur Bústaðaveg, aftan á kyrrstæða bifreið við gatnamót Grensásvegar og síðan á brott. Ökumaðurinn lenti síðan skömmu síðar í áreksti á Suðurlandsbraut við Faxafen. Hann er grunaður um ölvunarakstur. Ökumaður og farþegi í kyrrstæðu bifreiðinni leitaðu sér aðstoðar á slysadeild í framhaldinu. Og kl. 7.05 var bifreið ekið austur Suðurlandsbraut og aftan á kyrrstæða bifreið við gatnamót Faxafens. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis, lyfja og fíkniefna. Ökumaður og farþegi síðarnefndu bifreiðarinnar leituðu sér læknisaðstoðar eftir óhappið.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.