26 Mars 2018 10:54
Í síðustu viku slösuðust fjórtán vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 18. – 24. mars.
Sunnudaginn 18. mars kl. 18.23 fór hjólbarði undan strætisvagni í hringtorgi við Korpúlfsstaðaveg og lenti á bifreið, sem var ekið um Víkurveg. Ökumaður bifreiðarinnar leitaði sér aðstoðar á heilsugæslu í framhaldinu.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 19. mars. Kl. 13.03 var bifreið ekið vestur Sæbraut og aftan á kyrrstæða bifreið við gatnamót Katrínartúns. Ökumaður þeirrar bifreiðar var fluttur á slysadeild.Kl. 16.29 féll ung stúlka af reiðhjóli sínu við Smárahvamm 10. Hún var flutt á slysadeild. Og kl. 21.26 varð gangandi vegfarandi, á leið vestur yfir Reykjaveg við Hofteig, fyrir bifreið, sem var ekið suður götuna. Hann var fluttur á slysadeild.
Þriðjudaginn 20. mars kl. 0.58 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Laugaveg, og bifreið, sem var ekið norður Kringlumýrarbraut. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna, auk þess sem hann hafði verið sviptur ökuréttindum og á stolinni bifreið, Hann, ásamt ökumanni hinnar bifreiðarinnar, auk fjögurra farþega, voru fluttir á slysadeild.
Miðvikudaginn 21. mars kl. 18.34 varð gangandi vegfarandi, á leið austur yfir Kringlumýrarbraut við Hamrahlíð, fyrir bifreið, sem var ekið suður götuna. Hann var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 22. mars kl. 8.01 lenti stúlka á reiðhjóli, á leið suður Fjallkonuveg, fyrir bifreið, sem var ekið vestur Logafold og beygt áleiðis norður Fjallkonuveg. Um var að ræða eystri gatnamótin á móts við Jöklafold. Stúlkan var flutt á slysadeild.
Föstudaginn 23. mars kl. 16.25 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Bæjarháls og beygt norður Bitruháls, og bifreið, sem var ekið vestur Bæjarháls. Ökumaður og farþegi í fyrrnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.