17 Október 2017 13:35
Í síðustu viku slösuðust nítján vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 8. – 14. október.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 8. október. Kl. 17.13 var bifreið ekið suður Austurberg og á ljósastaur við innkeyrsluna að Breiðholtslaug. Við það valt bifreiðin yfir á hliðina. Ökumaðurinn, sem virtist hafa fengið hjartaáfall, var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.50 féll ökumaður af bifhjóli í Klettagörðum til vesturs gegnt eldneytisstöð Orkunnar. Hann var fluttur á slysadeild.
Mánudaginn 9. október kl. 18.04 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Breiðholtsbraut til austurs vestan Seljaskóga. Ökumaður einnar bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 10. október. Kl. 7.56 valt bifreið í hálku á Garðavegi við Garðaholt. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.43 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Hringhellu, og bifreið, sem var ekið suður Steinhellu. Ökumaður og farþegi í annarri bifreiðinni voru fluttir slysadeild.
Miðvikudaginn 11. október kl. 11.44 varð árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Háaleitisbrautar og Listabrautar. Báðir ökumennirnir vour fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 12. október. Kl. 16.46 varð gangandi vegfarandi á leið til suðurs yfir Túngötu austan Ægisgötu fyrir bifreið, sem var ekið vestur götuna. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.54 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Hafnarfjarðarvegi við Lyngás. Einn ökumannanna ætlaði að leita sér læknisaðstoðar í framhaldinu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 14. október. Kl. 17.25 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Bæjarháls, og bifreið, sem var ekið norður Hraunbæ. Átta, ökumenn og farþegar, voru fluttir á slysadeild. Og kl. 18.44 var ekið á dreng á reiðhjóli á Mosavegi við Víkurveg. Hann var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.