15 Janúar 2013 12:00
Sjö umferðarslys voru tilkynnt til lögreglu frá mánudeginum 7. janúar til sunnudagsins 13. janúar. Flest þeirra, eða þrjú talsins, eru talin hafa gerst sökum ógætilegs aksturs í hálku þar sem ökumaður ók of hratt miðað við aðstæður. Óhætt er því að benda ökumönnum á að þegar hálka er á vegum eða gera má ráð fyrir slíkum aðstæðum, ber ökumönnum að aka hægar en ella og gæta ítrustu varkárni til að koma í veg fyrir meiðsl, hvort heldur er á þeim sjálfum eða öðrum.
Ljóst er, miðað við upplýsingar lögreglu, að öll þau sjö tilvik er um ræðir hefði verið hægt að koma í veg fyrir með meiri aðgæslu ökumanna og tillitssemi gagnvart öðrum vegfarendum.
Tímasetning, aðdragandi og líklegar orsakir slysanna voru annars eftirfarandi:
Mánudaginn 7. jan. um klukkan 15 var bifreið ekið á ljósastaur í Stekkjarbakka við Álfabakka. Tveir voru í bifreiðinni og var farþegi fluttur á slysadeild til aðhlynningar, talsvert slasaður. Talið er að rekja megi orsök slyssins til þreytu ökumanns, en grunur leikur á að hann hafi sofnað við akstur.
Fimmtudaginn 10. jan. um klukkan 15 valt vörubifreið með saltfarm í hringtorgi á Reykjanesbraut við Lækjargötu. Ökumaður var einn í bifreiðinni. Hann leitaði aðhlynningar á slysadeild. Orsök slyssins er rakin til of hraðs aksturs í hringtorginu.
Fimmtudaginn 10. jan. um klukkan 17 var ekið á gangandi vegfaranda á gangbraut á Kleppsmýrarvegi við Súðarvog. Hinn gangandi leitaði aðhlynningar á slysadeild. Ástæða slyssins er rakin til óaðgæslu ökumanns við vegamót auk þess sem gangbrautarréttur var ekki virtur.
Laugardaginn 12. jan. um klukkan 11 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Reykjanesbraut vestan við Straumsvík með þeim afleiðingum að hún valt og endaði utan vegar. Þrír voru í bifreiðinni og var einn fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til þess að ökumaður hafi ekið of hratt í hálku.
Laugardaginn 12. jan. um klukkan 17 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Hvalfjarðarvegi með þeim afleiðingum að hún valt og endaði utan vegar. Ökumaður var einn í bifreiðinni og fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til þess að ökumaður hafi ekið of hratt í hálku.
Sunnudaginn 13. jan. um klukkan 15 lentu tvær bifreiðar saman á ljósastýrðum gatnamótum Snorrabrautar og Sæbrautar. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild til aðhlynningar og farþegi í hinni. Orsök slyssins er rakin til aksturs á móti rauðu ljósi.
Sunnudaginn 13. jan. um klukkan 17 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Kringlumýrarbraut í Fossvogi. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til þess að ökumaður hafi ekið of hratt í hálku.