22 Janúar 2013 12:00
Við upphaf árs skoraði lögreglan á ökumenn að gera sitt til að fækka umferðarslysum að meðaltali úr sjö á viku í þrjú til fjögur. Forsendur lögreglu eru að umferðarslys verða fyrst og fremst vegna óaðgæslu og tillitsleysis ökumanna og því þeirra sjálfra að breyta hegðun sinni og fækka slysum.
Í síðustu viku náðust þessi markmið í fyrsta sinn. Í ljósi þess viljum við hamra járnið og ítreka þá tröllvöxnu ábyrgð sem á ökumönnum hvílir gagnvart öllum þeim sem í umferðinni eru með þeim. Við hvetjum þá til að gera enn betur og bendum á að það er hægt að fækka slysum. Vilji er allt sem þarf.
Tímasetning, aðdragandi og líklegar orsakir slysanna sem áttu sér stað vikuna 14. til 20. janúar:
Mánudaginn 14. jan. um klukkan 15 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Óseyrarbraut við Lónsbraut og ók í hlið aðvífandi bifreiðar. Ökumaður í bifreiðinni sem ekið var á, var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til þess að ökumaður hafi ekið of hratt í hálku.
Föstudaginn 18. jan. um klukkan 14 var bifreið ekið inn á eystri gatnamót Bústaðavegar frá Kringlumýrarbraut og í veg fyrir bifreið sem ekið var til austurs Bústaðaveg. Ökumaður þeirrar bifreiðar var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til aksturs á móti rauðu ljósi.
Klukkan að ganga eitt aðfaranótt laugardagsins 19. jan. missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Digranesvegi við Digraneskirkju og lenti út af veginum og á vegriði. Fjögur ungmenni voru í bifreiðinni og var farþegi fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til ölvunar ökumanns.
Laugardaginn 19. jan. um klukkan 12 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Vesturlandsvegi við Grafarholt með þeim afleiðingum að hún fór út af veginum og endaði á staur. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til aðgæsluleysis ökumanns við akstur.