14 Nóvember 2016 13:06
Í síðustu viku slösuðust tuttugu vegfarendur í þrettán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 6. – 12. nóvember.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 6. nóvember. Kl. 0.14 var bifreið ekið austur Kársnesbraut og á umferðarljósavita við gatnamót Sæbólsbrautar. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Ökumaðurinn er grunaður um ölvunarakstur. Og kl. 22.06 var bifreið ekið á ljósastaur við Vesturvör. Farþegi í bifreiðinni leitaði sér aðhlynningar á slysadeild.
Mánudaginn 7. nóvember kl. 12.33 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið í húsagötu Ármúla gegnt nr. 5. Hann var fluttur á slysadeild.
Þriðjudaginn 8. nóvember kl. 22.50 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Bústaðaveg og beygt áleiðis suður Kringlumýrarbraut, og bifreið, sem var ekið austur Bústaðaveg. Eftir óhappið lenti svo þriðja bifreiðin, sem var ekið austur Bústaðaveg, á síðarnefndu bifreiðinni kyrrstæðri. Ökumaður og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.
Fimm umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 9. nóvember. Kl. 9.10 varð árekstur á gatnamótum Kringlunnar og Listabrautar. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 12.07 valt bifreið á gatnamótum Njarðargötu og Freyjugötu. Ökumaðurinn hafði ekið norður Njarðargötu þegar hann mætti stórri bifreið, ákvað að beygja frá, en lenti þá á kansteini með þeim afleiðingum að bifreiðin lenti á mannlausri bifreið við Freyjugötu og valt. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 17.12 var bifreið ekið aftan á aðra á Vesturlandsvegi við Rafstöðvarveg til austurs og síðan út af veginum. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 17.39 varð hjólreiðamaður fyrir bifreið, sem var ekið suður Háaleitisbraut og beygt áleiðis austur Bústaðaveg. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.25 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Kringlumýrarbraut, og bifreið, sem var ekið suður brautina og beygt áleiðis austur Miklubraut. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.
Fimmtudaginn 10. nóvember kl. 17 féll maður af reiðhjóli á göngustíg í Elliðaárdal við gömlu göngubrúna. Hann hafði runnið til á malarlagi á stígnum með framangreindum afleiðingum. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 11. nóvember. Kl. 7.27 fauk sendibifreið, sem var ekið suður Vesturlandsveg, út af veginum u.þ.b. 1 km norðan við Grundarhverfi og fór þar heila veltu. Ökumaður og farþegi leituðu sér aðhlynningar á sjúkrahúsinu á Akranesi. Og kl. 17.57 varð aftanákeyrsla á Kringlumýrarbraut við Háaleitisbraut til norðurs. Ökumaður og farþegi í fremri bifreiðinni leituðu sér aðstoðar á slysadeild.
Laugardaginn 12. nóvember kl. 6.38 valt bifreið á Reykjanesbraut á móts við kirkjugarðinn í Hafnarfirði. Ökumaðurinn hafði áður reynt að koma í veg fyrir árekstur við ljósastaur. Hann og farþegi í bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn.