4 Apríl 2016 11:18
Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í þremur umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 27. mars – 2. apríl.
Mánudaginn 28. mars kl. 14.05 varð ökumaður á vespu fyrir bifreið á gatnamótum Miðtúns og Katrínartúns. Ökumaður vespunnar var fluttur á slysadeild.
Þriðjudaginn 29. mars kl. 14.18 varð aftanákeyrsla á Bústaðavegi við Suðurhlíð til austurs. Báðir ökumenn og farþegi í aftari bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Laugardaginn 2. apríl kl. 13.07 var sendbifreið ekið aftur á bak áleiðis í stæði við verslun að Strandgötu 75 þegar hún lenti þar utan í mannlausri bifreið. Við það fipaðist ökumaðurinn og steig á eldneytisgjöfina í stað hemla með þeim afleiðingum að afturendi bifreiðarinnar lenti inn um glugga verslunarinnar. Farþegi aftan í bifreiðinni var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni.