15 Febrúar 2016 10:34
Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 7. – 13. febrúar.
Þriðjudaginn 9. febrúar kl. 19.27 varð árekstur með bifreið, sem ekið var um Tunguveg, og bifreið, sem ekið var um Sogaveg. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 10. febrúar kl. 10.18 lenti gangandi vegfarandi fyrir bifreið á Hringbraut við Birkimel. Bifreiðinni var ekið til austurs þegar lágsigld morgunsólin blindaði sýn ökumanns. Gangandi vegfarandinn var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 11. febrúar kl. 14.48 varð árekstur með bifreið, sem ekið var suður Reykjanesbraut og beygt áleiðis til austurs að Krýsuvíkurvegi, og bifreið, sem ekið var norður Reykjanesbraut. Sólin hafði hindrað útsýni ökumanns fyrrnefndu bifreiðarinnar áður en óhappið varð. Hann og farþegi í bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 12. febrúar. Kl. 16.17 var bifreið ekið á ljósastaur við Ásbraut við Vallartorg. Sól hafði blindað ökumanni sýn. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 17.06 var aftanákeyrsla á Dalvegi við Fífuhvammsveg. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.09 var bifreið ekið á ljósastaur við Ármúla nálægt Háaleitisbraut. Farþegi í bifreiðinni ætlaði að leita sér sjálfur aðstoðar á slysadeild.
Laugardaginn 13. febrúar kl. 19.49 valt bifreið, sem ekið var austur Suðurlandsveg, við Lögbergsbrekku. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni – ekki síst núna þegar snjór þekur jörð og búast má við hálku sérhvern dag. Mikilvægt er að þrífa framrúðuna reglulega svo útsýni ökumanns verði óhindrað – sérstaklega þessa dagana þegar sólin er lágt á lofti.