12 Janúar 2016 14:26
Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 3. – 9. janúar.
Mánudaginn 4. janúar kl. 17.01 var ekið á konu og barn fyrir utan Hagkaup í Spönginni. Þau voru að koma út úr versluninni á leið yfir að bifreiðastæðinu þegar bifreiðinni var beygt þar í vinstri beygju með fyrrgreindum afleiðingum. Konan og barnið voru flutt á slysadeild.
Miðvikudaginn 6. janúar kl. 20.46 varð aftanákeyrsla á Miklubraut við Kringlumýrarbraut á leið til austurs. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 7. janúar kl. 14 valt bifreið, sem ekið var vestur Skeiðholt að Skólabraut. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 8. janúar kl. 10.29 varð árekstur með bifreið, sem ekið var suður Strandveg og beygt áleiðis austur Hallsveg, og bifreið, sem ekið var norður Strandveg. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni – ekki síst núna þegar snjór þekur jörð og búast má við hálku sérhvern dag.