23 Nóvember 2015 11:58
Í síðustu viku slösuðust fimmtán vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 15. – 21. nóvember.
Sunnudaginn 15. nóvember kl. 20.48 féll ölvaður maður af þaki bifreiðar, sem ekið hafði verið af stað í Starhólma. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 16. nóvember. Kl. 10.53 var bifreið ekið á vegg verslunarinnar Krónunnar við Hamraborg. Ökumaðurinn hafði óvart stigið á eldsneytisgjöf í stað hemla þegar hann ætlaði að stöðva við verslunina. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.54 varð árekstur með lögreglubifreið í forgangsakstri, sem ekið var suður Reykjanesbraut og áfram áleiðis austur Breiðholtsbraut, gegn rauðu ljósi, og bifreið, sem ekið var vestur Breiðholtsbraut. Ökumaður og farþegi í lögreglubifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Þriðjudaginn 17. nóvember kl. 20.38 varð árekstur með bifreið, sem ekið var norður Lönguhlíð, og bifreið, sem ekið var suður Lönguhlíð og beygt áleiðis austur Miklubraut. Báðir ökumennirnir og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 18. nóvember. Kl. 10.23 var bifreið ekið á umferðarmerki við Kringluna, milli Húss verslunarinnar og verslunarmiðstöðvarinnar. Ökumaður, sem virðist hafa fengið aðsvif undir stýri skömmu áður en óhappið varð, var fluttur á slysadeild til skoðunar. Og kl. 12.44 var bifreið ekið í veg fyrir aðra á bifreiðastæði við Nýbýlaveg gegnt húsi nr. 8. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 19. nóvember kl. 18.22 var bifreið ekið upp á gangstétt í Skeifunni gegnt húsi nr. 8 og stöðvaðist síðan á kyrrstæðri bifreið. Ökumaðurinn, sem hafði fengið hjartaáfall, var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 20. nóvember. Kl. 2.41 var bifreið ekið á skiltabrúarstólpa við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Borgartúns. Ökumaðurinn virtist vankaður. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.58 var bifreið ekið út af Vesturlandsvegi við Sjávarhóla þar sem hún lenti á hlöðnum steinvegg. Tveir farþegar leituðu aðstoðar á slysadeild.
Laugardaginn 21. nóvember kl. 16.35 var bifreið ekið út af Suðurlandsvegi við Bláfjallaveg. Ökumaðurinn, sem virtist undir áhrifum fíkniefna, var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni – ekki síst núna þegar búast má við snjó og hálku sérhvern dag, auk þess sem sólin, þá er hún sést, er jafnan lágt á lofti og getur hindrað útsýni ökumanna sem og annarra vegfarenda.