10 Nóvember 2015 13:09
Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í jafnmörgum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 1. – 7. nóvember.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 1. nóvember. Kl. 4.09 var bifreið ekið austur Vesturlandsveg, í aðrein að Grafarholti og á ljósastaur, sem þar var við götuna. Ökumaðurinn, sem virðist hafa sofnað undir stýri stutta stund, var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.11 lenti hjólreiðamaður á fjögurra ára barni á hlaupahjóli. Óhappið átti sér stað á gangstíg við Norðlingaholt vestan Rauðhjóla. Barnið var flutt á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 2. nóvember. Kl. 7.57 varð gangandi vegrafandi fyrir bifreið á Birkimel við Hringbraut. Bifreiðinni hafði verið ekið vestur Hringbraut og beygt áleiðis suður Birkimel þegar hinn gangandi, sem gekk yfir Birkimel til vesturs, varð fyrir henni. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 8.55 varð hjólreiðamaður fyrir bifreið á Fífuhvammsvegi við Reykjanesbraut. Ökumaður bifreiðarinnar ók hiklaust áfram eftir óhappið. Hjólreiðamaðurinn þurfti að leita sér aðhlynningar á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 4. nóvember. Kl. 7.56 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á ljósastýrðri gangbraut á Réttarholtsvegi. Bifreiðinni hafði verið ekið vestur Sogaveg og beygt Réttarholtsveg til suðurs. Gangandi vegfarandinn, ung stúlka, var flutt á slysadeild. Og kl. 14.35 varð árekstur með tveimur bifreiðum, sem ekið var um Höfðabakka í gagnstæðar áttir við Bæjarháls. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 5. nóvember kl. 19.48 varð fjögurra bifreiða aftanánkeyrsla á Kringlumýrarbraut skammt norðan Bústaðavegar. Farþegi í öftustu bifreiðinni, ófrísk kona, var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 6. nóvember kl. 16.27 varð ökumaður á rafskutlu fyrir bifreið á Fjarðargötu þegar hann var að þvera götuna. Bifreiðinni var ekið suður götuna. Ökumaður rafskutlunnar var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 7. nóvember kl. 6.19 var bifreið ekið norður Suðurlandsveg, beygt í aðrein að Hádegismóum og þar á ljósastaur við brautina. Talið er að ökumaðurinn hafi sofnað undir stýri skömmu áður en óhappið varð. Hann var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni.