22 September 2015 16:23
Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu, en í einu slysanna lést ungur karlmaður. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 13. – 19. september.
Mánudaginn 14. september kl. 12.01 varð árekstur með bifreið, sem ekið var vestur Háaleitisbraut, og bifreið sem ekið var austur þá götu og beygt áleiðis norður Lágmúla. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 15. september. Kl. 8.34 varð aftanákeyrsla á Kringlumýrarbraut við Bústaðaveg. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild til skoðunar. Kl. 15.07 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á Lönguhlíð við Barmahlíð. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.46 var bifreið ekið utan í kyrrstæða bifreið á Suðurlandsbraut. Eftir áreksturinn lenti bifreiðin aftan á annarri bifreið, einnig kyrrstæðri. Talið var að ökumaðurinn hafi fengið aðsvif við aksturinn. Hann ásamt tveimur farþegum voru fluttir á slysadeild.
Miðvikudaginn 16. september. kl. 8.41 varð aftanákeyrsla á Hafnarfjarðarvegi við Digranesveg. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 17. september. Kl. 8.50 lentu saman hjólreiðarmaður og bifreið í Vatnsendahvarfi við Ögurhvarf. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 16.42 féll stúlka á reiðhjóli á Bergþórugötu við Vitastíg. Hún var flutt á slysadeild. Og kl. 17.53 féll drengur af reiðhjóli við Vættaskóla er hann hjólaði niður brekku, sem liggur frá bifreiðastæði við Dísaborgir, inn á skólalóðina þar sem búið var að gera lítinn stökkpall, þegar hann reyndi að stökkva á hjólinu en hitti illa á pallinn með þeim afleiðingum að hann skall illa niður og lenti á höfðinu/andliti. Drengurinn var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 18. september kl. 10.19 féll kona af reiðhjóli á reiðhjólastíg í Skerjafirði við Shell. Hún var flutt á slysadeild.
Laugardaginn 19. september. kl. 16.38 var jeppabifreið ekið aftan á vagn kyrrstæðrar dráttarbifreiðar á útskoti sunnan Suðurlandsvegar við Geitháls. Við áreksturinn kviknaði í jeppabifreiðinni. Ökumaðurinn lést í slysinu.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni.