8 Mars 2022 16:37
Sex umferðarslys voru tilkynnt til lögreglu í síðasta mánuði. Öll tengjast þau slæmri færð á vegum.
Slys varð á Norðfjarðarvegi í Fannardal þar sem ökumaður í skafrenningi og slæmu skyggni ók utan í vegrið. Var einn í bifreiðinni. Meiðsl talin minniháttar.
Slys varð við gangnamunna Fáskrúðsfjarðarganga þar sem ökumaður ók í snjóskafl sem þar hafði safnast fyrir. Missti hann stjórn á bifreið sinni sem skall í gangnavegg. Var einn í bifreiðinni. Meiðsl talin minniháttar.
Slys varð á Norðfjarðarvegi við álverið. Þar missti ökumaður stjórn á bifreið sinni í hálku og lenti framan á bifreið er á móti kom. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar slasaðist nokkuð. Ökumaður og farþegi í hinni bifreiðinni sluppu við meiðsl.
Á Naustahvammi í Neskaupstað endaði bifreið út af veginum vegna hálku og á hliðinni í lækjarfarvegi Ökumaður var einn í bifreiðinni og slasaðist nokkuð.
Flutningabifreið lenti utan vegar í Álftafirði vegna hálku og vinds, en vagn bifreiðarinnar rann út af veginum og dró bifreiðina með. Bíll og vagn ultu. Ökumaður var einn í bifreiðinni. Meiðsl talin minniháttar.
Fólksbifreið og sjúkrabifreið lentu saman í snjófjúki og slæmu skyggni á Fagradal við Grænafell. Ökumaður fólksbifreiðarinnar slasaðist lítillega sem og sjúkraflutningamaður/farþegi í sjúkrabílnum. Þá var sjúklingur í sjúkrabílnum er slapp ómeiddur.
Átta umferðarslys hafa nú verið skráð hjá lögreglu fyrstu tvo mánuði ársins en voru að meðaltali rétt ríflega tvö árin 2019 til 2021. Ökumenn eru að því sögðu hvattir til að gæta vel að sér, sér í lagi við aðstæður eins og þær sem við höfum búið við þessa fyrstu tvo mánuði ársins.
Förum varlega í umferðinni, komum heil heim.