12 September 2022 15:38
Níu umferðarslys voru tilkynnt lögreglu á Austurlandi í ágústmánuði síðastliðnum. Þau hafa ekki verið fleiri í einum mánuði það sem af er ári. Ellefu leituðu læknisaðstoðar í þessum níu slysum.
Þrjátíu og tvö slys hafa verið skráð það sem af er ári. Þau voru tuttugu og tvö á sama tíma í fyrra.
Fyrsta slys mánaðarins var tilkynnt til lögreglu á öðrum degi þegar ungur piltur á reiðhjóli hjólaði af göngustíg inn á bifreiðastæði við Kaupvang 1 á Egilsstöðum og lenti framan á bifreið er var einnig á leið inn á bifreiðastæðið. Gróður byrgði ökumönnum sýn. Pilturinn fékk aðhlynningu hjá HSA á Egilsstöðum.
Þann 04.08 var vörubifreið ekið Lagarfossveg við Móberg. Mætti þar annarri bifreið og því ekið út í vegkant sem þá gaf sig með þeim afleiðingum að vörubifreiðin valt. Ökumaður hennar var fluttur með sjúkrabifreið til læknisskoðunar á Egilsstöðum. Ekki talinn alvarlega slasaður.
Þann 05.08 var bifreið ekið fram úr röð annarra bifreiða á hringveginum við Heiðarsel á Jökuldalsheiði. Sökum umferðar á móti þurfti ökumaður að færa sig að nýju inn í röðina. Ökutæki hans rakst þá utan í bifreið sem var þar fyrir með þeim afleiðingum að hann missti stjórn á ökutæki sínu sem lenti utan vegar og valt. Þrír voru fluttir slasaðir til aðhlynningar. Áverkar ekki taldir alvarlegir.
Þann 07.08 velti ökumaður fjórhjóli sínu á slóða við Borgarfjarðarveg austan Brennistaða. Ökumaður ökklabrotinn og skrámaður. Fluttur á sjúkrahúsið í Neskaupstað.
Þann 07.08 lenti ungur ára piltur á reiðhjóli fyrir bíl á gangbraut á gatnamótum Austurvegar og Heiðarvegar á Reyðarfirði. Skert útsýni er við gatnamótin vegna gróðurs. Bifreiðin á lítill ferð. Pilturinn, sem var í fylgd móður, marðist á sköflungi við höggið og skrámaðist. Var skoðaður af sjúkraflutningamönnum á vettvangi en naut að því loknu aðhlynningar frá foreldrum.
Þennan sama dag, 7. ágúst, var þriðja slys dagsins tilkynnt til lögreglu. Ökumaður missti þá stjórn á bifreið sinni á Borgarfjarðarvegi á kafla þar sem vegaframkvæmdir stóðu yfir. Bifreiðin endaði utan vegar. Ökumaður fluttur á heilsugæslu HSA á Egilsstöðum, lítillega slasaður. Farþegi mun hafa sloppið ómeiddur.
Þann 12.08 missti ökumaður stjórn á bifhjóli sínu á Fjarðarheiði norðanverðri og lenti utan vegar. Hann talsvert lerkaður og illa áttaður eftir. Fluttur á heilsugæslu HSA á Egilsstöðum og þaðan með sjúkraflugi til Reykjavíkur.
Þann 23.08 valt bifreið á Sunnudalsvegi móts við Refstað í Vopnafjarðarhreppi. Ökumaður hafði þá reynt að forðast árekstur við lamb sem hlaupið hafði yfir veginn. Missti þá stjórn á ökutæki sínu sem valt utan vegar. Tveir voru í bílnum. Ökumaður leitaði sér aðhlynningar á heilsugæslu en farþega sakaði ekki. Lambið lenti fyrir bifreiðinni þrátt fyrir allt og hlaut bana af.
Annað fjórhjólaslys mánaðarins varð svo þann 29.08 í Loðmundarfirði. Ökumaður ók þá á grjót á vegslóða. Við það missti hann tak á stýri hjólsins og féll af því. Fluttur á sjúkrahúsið í Neskaupstað. Beinbrot og mar.
Lögregla hvetur að þessari upptalningu lokinni, ökumenn til að gæta vel að sér í umferðinni, hvort heldur utanbæjar eða innan, á vegslóðum eða annarsstaðar. Gætum að eigin öryggi og annarra, ökum varlega.