11 Ágúst 2006 12:00
Í gærkveldi, þann 10.ágúst, var lögreglu tilkynnt um umferðarslys í Eldhrauni skammt vestan við Kirkjubæjarklaustur. Þar hafði skutbifreið lent útaf þjóðvegi 1 og oltið nokkrar veltur áður en hún stöðvaðist tæpa 100 metrum utan við veginn í mosavöxnu hrauninu. Sjúkrabifreið og læknir fóru einnig á vettvang og voru ökumaður og farþegi sem í bifreiðinni voru fluttir á heilsugæslustöðina á Kirkjubæjarklaustri til aðhlynningar.
Betur fór en á horfðist og voru ökumaður og farþegi útskrifaður af heilsugæslustöðinni seinna um kvöldið eftir að læknir hafði saumað nokkur spor í skurði. Voru þeir óbrotnir en nokkuð lemstraðir. Þykir mikil mild að ekki fór verr því bifreiðin var fullfermd af ýmsum búnaði. M.a. var í bifreiðinni 200 kg. kútur af köfnunarefni, nokkrir kútar af slökkvitækjum o.fl. sem kastaðist út úr bifreiðinni þegar hún fór í loftköstum út fyrir veginn og þykir með ólíkindum að mennirnir skyldu hafa gengið óstuddir út úr bifreiðinni.
Bifreiðin er talin ónýt eftir óhappið. Orsök slyssins eru ekki kunn en lögreglan vinnur nú að rannsókn málsins
Lögreglan vill brýna fyrir ökumönnum að ganga tryggilega frá farangri og öðrum lauslegum munum inn í bifreiðum áður en lagt er af stað í ferðalög.