13 Desember 2011 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir vitnum að umferðaróhappi sem varð á Korpúlfsstaðavegi, við Barðastaði, klukkan 8.20 í gærmorgun, mánudaginn 12. desember. Þar á gatnamótunum var hvítum, litlum tveggja dyra sendibíl ekið í veg fyrir grænan KIA Picanto með skráningarnúmerið YZ-208. Ökumaður KIA-bílsins, sem ók Korpúlfsstaðaveg í vesturátt, nauðhemlaði og tókst að koma í veg fyrir slys en bíll hans endaði engu að síður utan vegar og skemmdist nokkuð. Hvíta sendibílnum, sem var ekið suður Barðastaði og beygt í vestur á fyrrnefndum gatnamótum, var hins vegar ekið rakleitt af vettvangi.
Ökumaður hvíta sendibílsins er hvattur til að gefa sig fram sem og vitni í málinu. Tvö önnur ökutæki fóru um gatnamótin á sama tíma og því líklegt að þeir sem í þeim sátu geti varpað einhverju ljósi á málið. Upplýsingum um óhappið má koma á framfæri við lögreglu í síma 444-1180 eða í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is