14 Febrúar 2011 12:00
Tvö hundruð og fimmtíu ökumenn voru stöðvaðir í sérstöku umferðareftirliti lögreglunnar um helgina. Einn þeirra reyndist ölvaður við stýrið og sex til viðbótar var gert að hætta akstri en þeir höfðu sömuleiðis neytt áfengis en voru þó undir leyfilegum mörkum. Sem fyrr var ljósabúnaði allmargra ökutækja áfátt en lögreglan hvetur ökumenn til að hafa hann alltaf í lagi.
Enn er líka mikið um ótryggð og óskoðuð ökutæki á höfuðborgarsvæðinu en um helgina voru skráningarnúmer fjarlægð af fimmtán ökutækjum í umdæminu af þeim sökum. Ekkert lát er heldur á stöðubrotum en lögreglan hafði afskipti af tuttugu ökutækjum vegna þessa.