3 Október 2012 12:00
Á annan tug manna voru handteknir í sameiginlegum aðgerðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, embættis ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á Suðurnesjum og lögreglunnar í Árnessýslu gegn vélhjólagengi, en einstaklingarnir voru handteknir í húsnæði samtakanna í Hafnarfirði og víðar. Aðgerðirnar hófust fyrr í kvöld en í framhaldinu var framkvæmd húsleit í fyrrnefndu húsnæði og einnig víðar á höfuðborgarsvæðinu, sem og á Suðurnesjum og í Árnessýslu. Við húsleitirnar var m.a. lagt hald á ætlað þýfi, fíkniefni og margskonar eggvopn. Á áttunda tug lögreglumanna tóku þátt í aðgerðunum, sem voru nokkuð umfangsmiklar, auk starfsmanna tollgæslunnar sem aðstoðuðu við húsleitir með sérþjálfuðum hundum.
Flestir hinna handteknu eru meðlimir í vélhjólagenginu og hafa jafnframt áður komið við sögu hjá lögreglu. Hinir sömu voru færðir til vistunar í fangageymslum lögreglu, en yfirheyrslur munu standa fram á nótt og verður síðan framhaldið í fyrramálið. Óljóst er hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir einhverjum hinna handteknu, slíkt fer eftir framvindu rannsóknarinnar. Vegna rannsóknarhagsmuna er ekki unnt að greina frá tilefni aðgerðanna á þessu stigi málsins.
Frekari upplýsingar er ekki hægt að veita að svo stöddu, en fréttatilkynningar um gang rannsóknarinnar verða sendar út eftir því sem henni vindur fram.