29 Október 2007 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af mörgum ökumönnum um helgina vegna ýmissa brota. Hugsunarleysi sumra er með ólíkindum en dæmi um það er þrítugur ökumaður sem var stöðvaður í Kópavogi en með honum í för var barnið hans, tveggja ára. Barnið sat í framsæti bílsins með öryggisbelti spennt en barnabílstóll eða ámóta öryggisbúnaður var hvergi sjáanlegur.
Ellefu ökumönnum var gert að hætta akstri í umdæminu en þeir höfðu ýmist þegar verið sviptir ökuleyfi eða aldrei öðlast ökuréttindi. Tveir þeirra reyndu að villa á sér heimildir en annar gaf upp nafn bróður síns en lögreglan sá við þessum lygum. Þá eru margir sem trassa að endurnýja ökuskírteinið en einn þeirra sem var stöðvaður um helgina framvísaði ökuskírteini sem rann út fyrir hálfum öðrum áratug.
Fimmtíu og eitt umferðaróhapp var tilkynnt um helgina en sjö þeirra má rekja til ölvunaraksturs. Þá má rekja eitt umferðaróhapp til aksturs undir áhrifum fíkniefna. Í fjórtán tilfellum var um afstungu að ræða.