6 Júní 2024 21:11

Um þessar mundir eru liðin 50 ár frá því að mátti sjá fyrstu einkennisklæddu lögreglukonurnar að störfum á Íslandi, en tímamótanna var minnst með veglegu hófi í félagsheimili Lögreglufélags Reykjavíkur í gær. Þar var fjölmennt og gleðin eftir því, en boðið var upp á mjög áhugaverða dagskrá þar sem sögunni voru gerð góð skil. Á meðal ræðumanna var Katrín Þorkelsdóttir, sem var önnur tveggja lögreglukvenna sem þá klæddust einkennisfatnaði í fyrsta sinn, og rifjaði hún upp þennan tíma. Þá var bókstaflega öldin önnur og tíðarandinn eftir því, en hreint magnað var að heyra frásögn Katrínar af þessum upphafsárum þeirra. Hin lögreglukonan, sem um ræðir, er Dóra Hlín Ingólfsdóttir, sem lést fyrir nokkrum árum, en hún starfaði í lögreglunni um áratugaskeið. Fljótlega bættust fleiri lögreglukonur í hópinn, sem var þó harla lítill í þeim mikla karlaheimi sem lögreglan var í þá daga.

Þessi fyrsti dagur einkennisklæddra lögreglukvenna var 30. júní 1974, sama dag og alþingiskosningar fóru fram, og ráku þá margir upp stóru augu. Aðdragandinn var alllangur, en rúmlega tíu árum árum fyrr hafði lögreglustjórinn í Reykjavík, Sigurjón Sigurðsson, rætt um það í yfirstjórn lögreglunnar í Reykjavík að koma á fót einkennisklæddri kvenlögregludeild hjá embættinu. Hann kvað heldur ekki annað koma til greina en að kvenlögreglan hefði aðstöðu algjörlega út af fyrir sig. Sú varð líka raunin árið 1974, en breyttist síðan þegar kvenlögregludeildin hjá lögreglunni í Reykjavík var sameinuð almennri löggæslu þess embættis 11. maí 1976.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir úr hófinu í gær, sem Sandra Sif Ottadóttir tók, en á þeirri fyrstu má sjá nokkrar konur sem sannarlega ruddu brautina fyrir þær sem á eftir komu. Þetta eru Katrín Þorkelsdóttir, Arnþrúður Karlsdóttir, Björg Jóhannesdóttir, Bonnie Laufey Dupuis, Svanhvít Eygló Ingólfsdóttir, Sigrún Ólafsdóttir og Jónína Sigurðardóttir, sem allar hófu störf í lögreglunni á áttunda áratug síðustu aldar. Með þeim á myndinni eru Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra, sem flutti opnunarávarp í hófinu, og Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Við stóðumst heldur ekki mátið og urðum líka að láta fylgja með eina mynd af þeim saman, Katrínu og Dóru Hlín frá þessum stórmerkilegu upphafsárum og birtist hún síðast.