8 September 2017 12:29
Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir ágústmánuð 2017 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 799 tilkynningar um hegningarlagabrot í ágúst. Eru það fleiri tilkynningar en bárust í júlí. Mikil fjölgun var á tilkynningum um þjófnaði í ágúst miðað við meðalfjölda síðustu sex og 12 mánuði á undan. Fjölgunin skýrist að mestu af fjölgun tilkynninga um þjófnaði á reiðhjólum og innbrot í ökutæki. Tilkynntum þjófnuðum hefur þó fækkað um sex prósent það sem af er ári miðað við meðaltal fyrir sama tímabili síðustu þriggja ára á undan. Í ágúst barst 71 tilkynning um innbrot, en það er svipaður fjöldi og að meðaltali síðustu 12 mánuði á undan. Það sem af er ári hefur tilkynntum innbrotum fækkað um 11 prósent samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára á undan. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 14 tilkynningar um kynferðisbrot sem áttu sér stað í ágústmánuði og fækkaði tilkynningum nokkuð miðað við meðaltal síðustu sex mánaða á undan. Einnig fækkaði beiðnum um leit að týndum ungmennum í ágúst, það sem af er ári hafa beiðnirnar þó verið um 55 prósent fleiri en að meðaltali síðstu tvö ár á undan.