30 September 2024 08:30

Ný skýrsla ríkislögreglustjóra um tilkynningar til lögreglu um kynferðisbrot fyrstu sex mánuði ársins 2024 hefur verið birt á vefsvæði lögreglunnar. Helstu niðurstöður eru:

  • Tilkynnt kynferðisbrot eru 11% færri samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára
  • Skv. gögnum lögreglu eru um átta brotaþolar kynferðisbrots að meðaltali á viku hverri
  • Færri nauðganir voru tilkynntar á tímabilinu en fleiri tilkynningar um kynferðislega áreitni og stafræn kynferðisbrot

Lögreglan fékk tilkynningu um 279 kynferðisbrot frá janúar til júní 2024 sem  eru um 11 % færri brot samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára. Tilkynntar nauðganir voru 12% færri samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára en fjöldi tilkynntra brota um kynferðislega áreitni og stafræn kynferðisbrot voru 19% fleiri á tímabilinu (alls 76 brot). Kynferðisbrot sem áttu sér stað á tímabilinu janúar til júní og voru jafnframt tilkynnt lögreglu, voru 191 en hluti brota sem tilkynnt eru lögreglu eru tilkynnt talsvert eftir að brotið átti sér stað.

Um 92% grunaðra karlkyns

Um þriðjungur grunaðra í kynferðisbrotamálunum voru yngri en 25 ára og um fjórðungur á aldrinum 26 til35 ára sé tekið mið af þeim brotum sem tilkynnt voru á tímabilinu 2020 til og með júní 2024. Á fyrsta helmingi ársins voru 92% grunaðra í kynferðisbrotum karlkyns. Brotaþolar voru 219, eða rétt yfir átta að meðaltali á viku hverri fyrstu sex mánuði ársins. Á fyrsta helming ársins voru 85% brotaþola allra kynferðisbrota kvenkyns. Í tilkynntum nauðgunum voru 95% brotaþola kvenkyns.

Þegar kynferðisbrot eru skoðuð eftir tíma brots og mánuðum allt aftur til ársins 2020 má sjá að í desember 2020 voru brotin óvenju mörg eða 101. Skýringin er sú að þann mánuð voru brot er snúa að vændi (aðallega kaup á vændi) óvenju mörg eða 55 talsins. Sjaldgæft er að slík mál séu tilkynnt til lögreglu og byggist því skráning mála að miklu leyti á frumkvæðisvinnu lögreglu. Þá voru einnig óvenju mörg kynferðisbrot skráð í maí 2021 eða 78 brot, en þá voru flestir flokkar kynferðisbrota í hærra lagi.

Afdrif mála hjá ákæruvaldi

Ríkissaksóknari, sem æðsti yfirmaður ákæruvalds, tekur árlega saman tölfræði um fjölda afgreiddra mála og afdrif þeirra. Tölfræðin tekur ekki saman heildarfjölda kæra og er ekki samanburðarhæf við fjölda tilkynninga til lögreglu milli ára. Miðað er við aðrar tímasetningar í tölfræði ákæruvalds, sem sýnir fjölda mála sem eru afgreidd það ár. Líklegt er að þau mál hafi verið tilkynnt til lögreglu á öðru ári en þau voru afgreidd hjá ákæruvaldi.

Árið 2023 voru 269 mál vegna kynferðisbrota afgreidd hjá ákæruvaldi. Þar af var gefin út ákæra í 42% málanna, í 3% þeirra var fallið frá saksókn og í 51% tilvika voru málin felld niður af ákæruvaldi.  Í 4% málanna var um að ræða ákærufrestun. Til samanburðar voru afgreidd 546 mál vegna manndrápa og líkamsmeiðinga sama ár. Gefin var út ákæra í 60% þeirra mála, í 6% þeirra var fallið frá saksókn og í 34% mála voru málin felld niður af ákæruvaldi. Í 1% mála var máli lokið með  ákærufrestun. Meginþorri líkamsmeiðingamála sem tilkynnt eru til lögreglu eru heimilisofbeldismál.

Í aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu er ein aðgerð þar sem horft er til þess að ná heildarmynd af meðferð kynferðisbrota í gegnum allt réttarvörslukerfið, hjá lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum, en slíkar upplýsingar liggja ekki fyrir í dag.

Nánari upplýsingar um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu má finna á ofbeldisgátt 112.is, og um meðferð allra sakamála á vefsíðu Ríkissaksóknara

Ætíð er hægt að tilkynna mál til 112. Þá má finna upplýsingar um úrræði vegna kynferðisofbeldis á vef Neyðarlínunnar, www.112.is

——–

Nánari upplýsingar veitir Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, helena.sturludottir@logreglan.is og í síma 444 2576