15 Apríl 2016 15:13
Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir marsmánuð 2016 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.
Í mars voru skráðar 662 tilkynningar um hegningarlagabrot, sem gerir um það bil 20 tilkynningar á dag. Tilkynnt var um 307 þjófnaði sem eru um 46 prósent allra tilkynntra hegningarlagabrota í mars. Þar af voru 77 tilkynningar vegna innbrota, en þeim fjölgar á milli mánaða. Nytjastuldum á vélknúnum farartækjum fjölgar mest á milli mánaða. Tilkynnt var um 42 nytjastuldi í mars og hafa tilkynningar ekki verið fleiri á einum mánuði síðan í febrúar á síðasta ári. Tilkynntum ofbeldisbrotum fækkar miðað við fyrri mánuði. Skráð voru 82 brot, en það sem af er ári hafa þó verið skráð fleiri brot miðað við sama tíma síðustu þriggja ára.