8 Júlí 2020 13:16
Von er á Norrænu til Seyðisfjarðar í fyrramálið með um 750 farþega. Tíu manna sýnatökuteymi starfsfólks HSA auk tæknimanna er komið til Færeyja og skimar farþega á leið ferjunnar til Seyðisfjarðar. Skimun hefst tuttugu og fjórum sjómílum undan strönd landsins og standa vonir til að henni verði lokið áður en til hafnar kemur. Taka þarf sýni úr rétt um fimm hundruð farþegum, nokkru fleiri en í síðustu ferð. Þeir er dvalið hafa í Færeyjum, á Grænlandi eða Íslandi síðustu fjórtán daga eða eru fæddir árið 2005 eða síðar þurfa ekki í sýnatöku.
Aðgerðastjórn á Austurlandi áréttar að farþegar fá allir ítarlegar leiðbeiningar um það hvernig beri að haga sér þegar í land er komið og þá sér í lagi áður en niðurstöður sýnatöku liggja fyrir, að jafnaði innan við sólarhring eftir komu. Mælst er til að þeir fari varlega, haldi kyrru fyrir á heimili eða áfangastað, haldi hæfilegri fjarlægð frá öðru fólki, forðist snertingu eins og faðmlög og handabönd auk þess sem hvatt er til reglulegs handþvottar. Ekki eru gerðar athugasemdir við að þeir fari til að mynda í verslanir og kaupi nauðsynjar enda gæti þeir að fjarlægðarmörkum.
Leiðbeiningar til farþega um aðgát og smitvarnir eru ekki ósvipaðar þeim sem við heimamenn höfum fengið síðustu mánuði. Þar hefur okkur í sameiningu tekist vel til. Höldum áfram á þeirri braut.