23 Nóvember 2021 15:08
Á Austurlandi eru nú 17 í einangrun og 23 í sóttkví. Í morgun var sýnataka hjá þeim starfsmönnum sjúkrahússins í Neskaupstað sem voru settir í sóttkví eða smitgát. Niðurstöður ættu að liggja fyrir seint í kvöld.
Nú skiptir máli að allir sem hafa einkenni sem bent geta til COVID-19 smits bóki PCR sýnatöku á heilsugæslustöð. Það er ekki nægilegt í slíkum tilvikum að taka sjálfspróf eða heimapróf enda geta þau bæði gefið falska jákvæða eða falska neikvæða niðurstöðu. Einnig ber að ítreka að fólk sem kemur erlendis frá þarf að hafa varann á dagana eftir heimkomu, einnig þó sýnataka á landamærum innan 48 stunda hafi verið neikvæð. Komi einkenni veikinda fram eftir utanlandsferð er mikilvægt að bókuð sé einkennasýnataka á heilsugæslu og viðkomandi haldi sig heima þar til niðurstaða liggur fyrir.
Aðgerðastjórn vill nýta tækifærið og hvetja íbúa fjórðungsins til að þiggja örvunarbólusetningu þegar boð berst. Þá skiptir máli að við sinnum áfram persónubundnum sóttvörnum, notum spritt og grímur til að verja bæði sjálf okkur og aðra.
Höldum áfram að gera þetta saman.