18 Maí 2021 20:07
Engin greind COVID smit eru á Austurlandi.
Norræna kom í morgun með 72 farþega innanborðs. Af þeim fóru fjórtán í sóttvarnarhús. Tuttugu og einn farþegi hafði dvalið í Færeyjum lengur en 14 daga og þurfti því ekki í sóttkví. Ástæðan er sú að Færeyjar teljast nú til græns lands í COVID skilgreiningu, annað af tveimur. Eðlilega er hitt landið Grænland!
Þá hefur sú breyting orðið á að sýnataka farþega í Hirtshals gildir nú hér á landi og er því ekki lengur á Seyðisfirði. Fimm daga sóttkví farþega hefst við brottför skipsins þaðan. Norræna er þrjá daga á leið sinni til Íslands og farþegar því einungis í tveggja daga sóttkví hér á landi í stað fimm eins og áður var. Þá framvísa farþegar í vaxandi mæli vottorði um annað tveggja, bólusetningu gegn Covid eða afstaðinni Covidsýkingu og eru því frjálsir ferða sinna við komuna til Seyðisfjarðar.
Aðgerðastjórn áréttar sem fyrr sóttvarnareglur og hvetur fyrirsvarsmenn íþróttakappleikja sérstaklega og áhorfendur til að hafa 150 manna fjöldatakmarkanir í huga, eins metra fjarlægðarreglu ótengdra og grímunotkun meðal annars sbr. 3. gr. reglugerðar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar 10. maí.pdf (stjornarradid.is)
Gerum þetta saman og siglum fleyinu heilu heim.