28 Mars 2021 17:43
Fimm eru enn í einangrun á Austurlandi vegna landamærasmita. Einn tíu smitaðra skipverja um borð í súrálsskipi við Mjóeyrarhöfn á Reyðarfirði var síðdegis í dag fluttur með sjúkraflugi á Landspítala. Tilefni flutningsins var viss versnun einkenna á þann hátt að samkvæmt áður gerðri áætlun þótti rétt að flytja hann til öryggis á sjúkrahús. Ástand annarra smitaðra um borð telst stöðugt.
Flutningur hins veika var framkvæmdur í samræmi við fyrirfram ákveðið skipulag. Hann gekk snurðulaust fyrir sig. Aðgerðastjórn telur ekki ástæðu til að óttast dreifingu smits vegna þessa.
Þeir skipverjar um borð sem ekki hafa greinst með smit munu skimaðir á morgun í þriðja sinn frá komu skipsins 20. mars síðastliðinn. Ætti niðurstaða að liggja fyrir seinnipart morgundagsins eða á þriðjudag. Frá því smitin voru staðfest fyrir viku síðan er allt gert um borð til að koma í veg fyrir að smit berist frá smituðum til ósmitaðra skipverja.