22 Febrúar 2010 12:00
Karl á þrítugsaldri hefur viðurkennt að hafa stolið þvottavél úr sameign fjölbýlishúss á höfuðborgarsvæðinu nýverið. Fleiri slík mál eru til rannsóknar hjá lögreglu en í síðustu viku fannst illa fengin þvottavél í bifreið sem var stöðvuð í borginni. Í því tilviki var hægt að koma vélinni aftur í réttar hendur en hætt er við að einhverjar séu seldar á verði sem er of gott til að vera satt. Vegna þessa hvetur lögreglan fólk til að hafa samband ef það verður vart við óeðlileg tilboð. Einnig er bent á mikilvægi þess að tryggja að óboðnir gestir eigi ekki greiða leið inn í hús, hvort heldur er um að ræða sameign eða aðrar vistarverur.