7 Mars 2007 12:00
Þrír ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring. Fyrst var sextug kona stöðvuð fyrir þær sakir á Reykjanesbraut sunnan Hafnarfjarðar í gærmorgun. Um miðjan dag var fimmtugur karlmaður tekinn fyrir sama brot í Pósthússtræti en sá var þegar sviptur ökuleyfi. Loks var þrítugur karlmaður stöðvaður á Suðurlandsbraut um kvöldmatarleytið en sá var líka drukkinn undir stýri. Þá var akstur tvítugrar stúlku stöðvaður á Miklubraut um hádegisbil en hún var undir áhrifum lyfja.
Lögreglan stöðvaði fjóra aðra ökumenn í gær sem allir voru þegar sviptir ökuleyfi en tveir þeirra mega líka búast við sekt fyrir hraðakstur. Þá var sextán ára piltur tekinn í Breiðholti í gærkvöld en sá hafði tekið bíl foreldra sinna í leyfisleysi. Eins og aldur piltsins segir til um hefur hann aldrei öðlast ökuréttindi. Í sama hverfi stöðvuðu lögreglumenn tvær konur sem báðar óku á tvöföldum leyfilegum hámarkshraða í íbúðargötum.
Þrjátíu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Í þremur tilfellum var fólk flutt á slysadeild en meiðsli allra voru talin minniháttar.