18 Júní 2003 12:00
Að ósk lögreglunnar á Ísafirði voru þrír karlmenn um tvítugt handteknir, af lögreglunni á Patreksfirði, á Hjarðarnesi á Barðaströnd um kl.21:00 í gærkveldi.
Ástæða handtökunnar var grunur um að mennirnir, sem eru frá Bolungarvík og Ísafirði, hefðu fíkniefni í fórum sínum, en þeir voru að koma frá Reykjavík og á leið til Bolungarvíkur.
Þegar lögreglan á Patreksfirði handtók mennina vísuðu þeir á rúmt gramm af marihúana, auk þess sem fíkniefnaáhöld fundust í bifreið þeirra. Lögreglan á Patreksfirði kom þremenningunum í hendur lögreglunnar á Ísafirði. Mennirnir hafa gist fangageymslur lögreglunnar á Ísafirði í nótt. Þeir hafa nú verið yfirheyrðir vegna málsins og hafa allir játað að hafa átt marihúanaefnið og jafnframt neytt hluta þess í gær.
Mennirnir, sem allir hafa verið grunaðir um tíma um fíkniefnaneyslu, eiga yfir höfði sér refsingu skv. ákvæðum laga um ávana og fíkniefni.
Lögregluliðin á Vestfjörðum munu áfram vera vel á verði gagnvart hugsanlegum fíkniefnaflutningi til svæðisins og allri meðhöndlun slíkra efna. Lögreglan á Vestfjörðum hvetur ábyrga íbúa svæðisins til að gera lögreglunni viðvart ef grunsemdir um slík brot vakna.