7 Ágúst 2017 14:15
Fimm gistu fangageymslur vegna ýmissa mála. Tveir vegna ölvunar og óspekta. Einn skemmdi bíl sem stóð við Áshamar, annar var að bera sig í tjörninni í Herjólfsdal og einn sat inni vegna heimilisofbeldis. Lögreglu var tilkynnt um tvö kynferðisbrot á laugardag, í báðum tilvikum var um aðila sem þekkjast að ræða. Málin eru í rannsókn, aðilar hafa gefið skýrslu og fengið réttarlæknisfræðilega skoðun. Meintum sakborningum var sleppt að skýrslutökum loknum. Ekki hafa verið lagðar fram kærur í málunum.
Þrettán fíkniefnamál komu upp frá því í gærdag og voru þau því á fimmta tug yfir alla hátíðina. Langmest var haldlagt af amfetamíni og kókaíni. Mest voru þetta svokallaðir neysluskammtar en í tveimur málanna er grunur um sölu. Þetta er svipaður fjöldi mála og undanfarin ár.
Átta líkamsárásar mál voru kærð á hátíðinni til lögreglunnar, þar af eitt þar sem tennur brotnuðu í aðila sem var sleginn. Í hinum málunum var um minniháttar áverka að ræða.
Sextán umferðarlagabrot voru kærð á hátíðinni, lagningabrot, ökumenn án öryggisbeltis, farsímar notaðir án handfrjáls búnaðar og þá var einn kærður fyrir að vera enn á nagladekkjum.
Þjóðhátíðargestir eru nú farnir að streyma til síns heima og fór Herjólfur sína fyrstu ferð kl. 02:00 í nótt og mun hann ásamt farþegaferjunni Akranesi sigla óslitið í allan dag til að koma gestum til Landeyjahafnar. Þá mun flugfélagið Ernir fara margar ferðir í dag og einnig eru minni flugvélar sem ferja fólk á Bakkaflugvöll.
Á samráðsfundi viðbragðsaðila kom fram að hátíðin hafi verið með þeim fjölmennari sem haldin hefur verið. Talið er að um 16.000 gestir hafi verið á brekkusöngnum í gærkvöldi.