1 Júlí 2008 12:00
Þrettán líkamsárásir voru tilkynntir til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina en flestar voru þær minniháttar. Fáeinir þurftu samt að leita sér aðhlynningar á slysadeild en óttast var að einn hefði nefbrotnað en sá var sleginn í andlitið á dansgólfi skemmtistaðar í miðborginni. Piltur um tvítugt kom við sögu í tveimur þessara þrettán mála en hann er talinn vera gerandi í öðru þeirra en þolandi í hinu. Umræddum aðila var orðið ansi heitt í hamsi þegar líða fór á sunnudagsnóttina og svo fór að pilturinn var færður í fangageymslu lögreglunnar.
Það skal tekið fram að nokkrar þessara tilkynntu líkamsárása áttu sér stað utan miðborgarinnar. Lögreglan sinnti líka nokkrum útköllum vegna heimilsofbeldis en í þeim málum, líkt og hinum sem hér hafa verið nefnd, kom áfengi við sögu en hlutaðeigendur voru ölvaðir í nær öllum tilvikum.