23 Október 2006 12:00
Lögreglumenn geta lent í ótrúlegustu aðstæðum og verða ávallt að vera við öllu búnir. Eitt dæmi þess átti sér stað um helgina þegar lögreglunni í Reykjavík barst tilkynning um umferðaróhapp í austurbænum. Þegar komið var á staðinn var sannarlega um umferðaróhapp að ræða. Bíll hafði farið út af veginum og hafnað á vegg.
Ökumaðurinn var með beltið spennt en loftpúði í stýri bílsins hafði sprungið út. Ekki var að sjá neina áverka á ökumanninum en hann virtist meðvitundarlaus þegar að var komið. Hann var því fluttur á slysadeild til frekari rannsóknar en bifreið hans var fjarlægð af vettvangi.
Á slysadeild kom hins vegar í ljós að maðurinn var alls ekki meðvitundarlaus. Hann hafði verið með leikaraskap allan tímann og reynt að villa um fyrir lögreglunni. Sem betur fer er svona framferði fátítt enda er það mjög ámælisvert að sóa tíma lögreglu- og sjúkraflutningamanna sem og lækna. Ekki er fyllilega ljóst hvað vakti fyrir manninum en þegar hugað var að sárum hans fannst áfengisþefur. Því var brugðið á það ráð að taka úr honum tvö blóðsýni í þágu rannsóknar málsins. Og verði grunur lögreglunnar staðfestur er klárt að þessi aðili leikur ekki fleiri rullur undir stýri á næstunni.