10 Nóvember 2006 12:00
Tilkynnt var um þjófnaði á þremur bensínstöðvum í Reykjavík í gær og nótt. Um miðjan dag tók ökumaður bensín og rúðuvökva í austurbænum og ók síðan á brott án þess að greiða fyrir. Síðdegis tók kona tvo gaskúta frá annarri bensínstöð í austurbænum og fór á brott án þess að borga fyrir þá. Og í nótt kom önnur kona á bensínstöð í úthverfi og stal þar söfnunarbauk en í honum voru peningar sem fólk hafði látið af hendi rakna fyrir þarft málefni.
En það voru fleiri þjófar á ferðinni í borginni. Hálffertugur karlmaður var staðinn að hnupli í matvöruverslun og tveir fjórtán ára unglingar voru gripnir fyrir þjófnað í verslunarmiðstöð. Unglingunum var ekið til síns heima þar sem rætt var við foreldra þeirra. Þá hvarf nokkuð af tölvuleikjum og DVD-diskum úr kjallaraherbergi í úthverfi.
Brotist var inn í verslun í miðbænum og þaðan stolið smáræði af peningum og í úthverfi var brotist inn í annað fyrirtæki. Þar söknuðu eigendur tölvubúnaðar. Þá var brotist inn í bíl í austurbænum og úr honum stolið nokkrum smáhlutum.