1 Ágúst 2011 12:00

Nokkur erill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í nótt. Þrir gistu fangageymslu og þar af einn aðili sem talið var að væri með skotvopn um borð í bát, sem lá í Vestmannaeyjahöfn. Sá hafði tilkynnt að hann ætlaði að vinna sér mein. Sérsveitarmenn sem voru hér á vegum ríkislögreglustjóra fóru og handtóku manninn og færðu hann í fangageymslu. Maðurinn reyndist vera ölvaður og engin skotvopn fundust um borð í bátnum.

Tvo kynferðisbrot kærð til lögreglu:

Einn gistir fangageymslu vegna rannsóknar þar sem hann er grunaður um að hafa nauðgað konu á hátíðarsvæðinu í fyrrinótt. Konan, sem er rúmlega tvítug, tilkynnti um atburðinn síðdegis í gær og gat gefið greinagóða lýsingu á meintum nauðgara. Hann var síðan handtekinn í nótt á hátíðarsvæðinu af gæslumönnum og var síðan fluttur á Selfoss þar sem hann gistir nú fangageymslu vegna rannsóknar á málinu. Þá kærði 24 ára kona kynferðisbrot nú í morgun en hún hafði leitað til Heilbrigðistofnunar Vestmannaeyja. Atvikið hafi átt sér stað í Herjólfsdal í nótt. Hún gat ekki bent á geranda og er málið í rannsókn.

Fíkniefnamál:

Nokkur fíkniefnamál komu upp í gær og nótt. Í einu málinu var aðili handtekinn í þriðja sinn á þessari hátíð með fíkniefni. Einnig hafði hann slegið vert á veitingarstað í bænum þannig að hann þurfti að leita til læknis til að láta gera að sárum sínum. Á þessum aðila fundust  í einu málinu 10 grömm af amfetamíni. Heildarfjöldi fíkniefnamála á þjóðhátíð Vestmannaeyja eru nálægt 40 málum.

Líkamsárásarmál:

Ein líkamsárás var tilkynnt til lögreglunnar nú í morgun en þar hafði aðili verið sleginn þannig að tvær tennur losnuðu. Fjöldi líkamsárásarmála á þessari hátíð sem kærð hafa verið til lögreglunnar eru 7 talsins þar af eitt sem var alvarlegt og sagt hefur verið frá í fjölmiðlum.

Umferðarlagabrot:

Þrir ökumenn voru kærðir vegna gruns um ölvun við akstur og tveir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá var einn ökumaður kærður fyrir akstur án réttinda.

Þar sem veðurspá var ekki góð fyrir síðast lina nótt var tekin sú ákvörðun að opna íþróttahúsið fyrir þá hátíðargesti sem þurftu húsaskjól. Ekki nýttu margir sér þessa aðstoð enda kom á daginn að veðurhæð náði ekki að gera verulegan usla í tjaldbúðum gesta, enda gekk veðurspá ekki eftir að þessu leyti. Gestir Þjóðhátíðar eru nú farnir að streyma til síns heima og mun Herjólfur sigla stanslaust næstu tvo sólarhringa. Þá mun flugfélagið Ernir og Flugfélag Íslands fara fjöldi ferða með farþega frá Eyjum.

Lögreglan metur að nálægt fjórtanþúsund manns hafi verið á þessari hátíð þegar mest var í gærkveldi á brekkusöng Árna Johnsen og félaga.