1 Ágúst 2005 12:00
Nú er Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum 2005 lokið og gestir í óða önn að halda heim á leið. Hjá lögreglu var síðasta nótt erilsöm og annríki mikið. Í morgunsárið komu upp tvö líkamsárásarmál og var í öðru tilfellinu sá sem fyrir árásinni varð fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Hann hafði fengið spark í höfuðið og líðan hans slæm í byrjun. Hann hefur nú jafnað sig að mestu og komin af sjúkrahúsi. Í hinu tilfellinu réðst ungur maður á þrjá nærstadda og lamdi þá með rörbút í andlit, þannig að tennur brotnuðu í einum.
Heildarfjöldi fíkniefnamála á Þjóðhátíð er 28, þar af voru haldlagt mest af amfetamíni eða 31 gramm, 13 grömm af hassi, 3 e-töflur, 1 gramm af kókaíni og annað eins af mariuhana. Þá fundust 3 skammtar af LSD, sem er fremur sjaldgæft eiturefni núorðið.
Af öðrum málaflokkum er að helst að tveir voru teknir fyrir meintan ölvunarakstur og nokkuð var af þjófnaðarkærum. Engin kæra barst lögreglu vegna kynferðisofbeldis og engin leitaði til neyðarmóttöku vegna nauðgana í Vestmannaeyjum þessa daga.
Enn er mikill fjöldi gesta í Herjólfsdal og í Vestmannaeyjabæ og hefur að mestu verið flogið í allan dag, en ekki má miklu muna að lokist fyrir flug vegna þoku.