9 Ágúst 2023 11:50
Verslunarmannahelgin fór nokkuð vel fram á Suðurlandinu og við tökum ýmis atriði út úr henni sem jákvæð. Umdæmið okkar nær sem kunnugt er frá Litlu kaffistofu í vestri og alla leið austur í Hvalnesskriður með tilheyrandi hluta hálendisins og því af nógu að taka dagana frá og með fimmtudeginum 3. ágúst til og með mánudeginum 7. ágúst.
10 umferðaróhöpp voru skráð hjá okkur, meiðsl á fólki í þremur þeirra og þau öll flokkast sem minniháttar. Í einu þessara tilvika, þann 3. ágúst, féll maður á mótorhjóli á Suðurlandsvegi við Landvegamót. Hjólið mikið skemmt og mögulega ónýtt eftir og hann verkjaður og aumur eftir en óbrotinn.
64 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt. Álagðar sektir vegna þessara brota nema rúmum 5 milljónum króna. Um 40% þessara ökumanna eru með erlenda skráningu á kennitölu (ferðamenn ekki með fasta búsetu á Íslandi) en 60% eru Íslendingar.
Svokallaðir umferðarpóstar voru settir upp víðsvegar um umdæmið. Á þeim póstum var kappkostað við að stöðva alla umferð og ökumenn látnir blása í áfengismæli ásamt því að kannað var með réttindi þeirra, ástand ökutækis o.fl. Ekki liggur fyrir talning á öllum þeim sem lögregla hafði afskipti af en reikna má með að „snertingarnar“ séu frekar í þúsundum en hundruðum.
Ölvaðir við akstur reyndust 30 alls. Þá reyndust 4 vera undir áhrifum fíkniefna eða lyfja. Það verður að teljast mikilsvert að þessir aðilar hafi ekki fengið að aka óáreittir en besta staðan hefði þó verið að engin hefði farið af stað nema alsgáður. 4 ökumenn reyndust vera að aka sviptir ökurétti og tveir með útrunnin ökuréttindi.
Í 5 tilvikum reyndust aðilar sem lögregla hafði afskipti af vera með fíkniefni í fórum sínum. Allt s.k. neyslumál þar sem magnið er lítið. 4 aðilar voru kærðir fyrir ölvun og óspektir á almannafæri og einhverjir þeirra fengu að gista þar til mesti móðurinn var farinn af þeim.
2 heimilisofbeldismál komu upp og fara þau í sinn venjubundna farveg hjá lögreglu og viðkomandi félagsmálayfirvöldum.
Þrátt fyrir ofangreindan lista er staðan samt þannig að engin er alvarlega slasaður í allri þessari umferð og fyrir því eru þrjár megin ástæður. Sýnilegt eftirlit lögreglu skilar árangri. Bætt umferðarmannvirki sem ekki refsa mönnum fyrir að gera mistök skipta miklu máli og það sem öllu skiptir, lang flestir ökumenn sameinuðust í því að fara varlega og fylgja umferðarreglum. Takk fyrir það.