25 Júlí 2006 12:00
Átta ára stúlka var flutt á slysadeild síðdegis í gær eftir að hafa hjólað á kyrrstæðan bíl í austurborginni. Talið er að stúlkan hafi fengið heilahristing en þess ber að geta að hún var með hjálm á höfði þegar óhappið varð. Ljóst þykir að hjálmurinn kom í veg fyrir frekari meiðsli og er ástæða til að ítreka mikilvægi hans enn og aftur.
En það þurftu fleiri að leita ásjár á slysadeild vegna óhappa í gær. Í Mosfellsbæ varð maður fyrir vinnuvél þar sem unnið var við gatnagerð. Manninum var komið undir læknishendur en betur fór en á horfðist. Meiðslin reyndust ekki alvarleg og búist er við að maðurinn snúi fljótt aftur til vinnu.