9 Nóvember 2006 12:00
Karlmaður snaraðist inn í verslun í austurbænum í gærmorgun og hvarf síðan á brott með 10-15 eggjabakka undir höndum án þess að greiða fyrir þá. Skömmu síðar var karlmaður á fertugsaldri færður á lögreglustöð en sá hafði stolið nokkru af skinkubréfum í annarri verslun í borginni. Ljóskastara var stolið frá stofnun í úthverfi og þar unnar skemmdir á búnaði utandyra. Þá voru tvær kerrur teknar frá öðru fyrirtæki og í gærkvöld var myndavél stolið frá gistihúsi.
Tilkynnt var um innbrot í íbúð í vesturbænum en húsráðandi saknaði nokkurra hluta. Í austurbænum var reynt að brjótast inn í tvö fyrirtæki en þar höfðu þjófarnir orðið frá að hverfa, tómhentir sem betur fer. Þá er vitað um innbrot í tvo bíla en einskis var saknað. Í öðrum þeirra virðist sem þýfi hafi verið skilið eftir. Lítið var um skemmdarverk almennt en þó varð einn bíleigandi fyrir barðinu á óprúttnum aðila sem braut af báða hliðarspegla bílsins.