9 Febrúar 2011 12:00
Eins og fram hefur komið fylgist lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega með stefnuljósanotkun ökumanna þennan mánuðinn. Um 80 ökumenn voru stöðvaðir í slíku eftirliti við Grandatorg í vesturbæ Reykjavíkur í gær og jafnmargir ökumenn voru stöðvaðir af sömu ástæðu á Vesturlandsvegi í dag en þar var fylgst með ökutækjum sem fóru um hringtorgið sem er sunnan verslunarkjarnans á Korputorgi. Allir þessir ökumenn gáfu ekki stefnuljós þegar ekið var út úr hringtorgi og fá nú sekt fyrir vikið.
Rétt eins og í gær voru líka allnokkrir ökumenn sem töluðu í síma án handfrjálss búnaðar og/eða höfðu ekki ökuskírteini meðferðis. Þess má sömuleiðis geta að einn þeirra sem var stöðvaður í dag reyndist vera undir áhrifum fíkniefna. Sá var handtekinn og fluttur á lögreglustöð en bíll viðkomandi var jafnframt ótryggður og því voru skráningarnúmerin fjarlægð.