19 Febrúar 2024 10:34
Í lok síðustu viku voru niðurstöður könnunarinnar Stofnun ársins 2023 birtar og er ánægjulegt að sjá að embætti ríkislögreglustjóra bætti sig verulega á milli ára. Embættið fór úr því að vera í 17 sæti með 3.95 í meðaleinkunn upp í 11 sæti með 4,15 í meðaleinkunn yfir þær ríkisstofnanir sem telja 90 starfsmenn eða fleiri.
Niðurstöðurnar ríma vel við samskiptagildi ríkislögreglustjóra sem valin voru af starfsfólki í nóvember í fyrra en þau eru; virðing, heiðarleiki og fagmennska. Samskiptasáttmálinn er gerður til að stuðla að skýrum og jákvæðum samskiptum á milli allra, óháð því hvaða störfum þau gegna hjá embættinu.
Í niðurstöðum könnunarinnar Stofnun ársins 2023 má sjá að starfsfólk hjá embætti ríkislögreglustjóra er almennt mjög ánægt og stolt af störfum sínum. Þá ríkir meðal annars ánægja meðal starfsfólks með stjórnun, starfsanda og jafnrétti á vinnustað auk sjálfstæðis í starfi.