7 Nóvember 2007 12:00
Þrátt fyrir oft á tíðum fremur neikvæða umfjöllun fjölmiðla um miðborgina líta langflestir íbúar hennar svo á að þeir séu einmitt mjög öruggir í miðborginni. Þetta kom m.a. fram á áhugaverðum fundi sem lögreglan átti með fulltrúum ýmissa aðila í miðborginni og Hlíðum en hann var haldinn í þjónustumiðstöð hverfanna að Skúlagötu 21 í gær. Fyrrnefnd niðurstaða kom fram í könnun sem lögreglan lét gera en í henni var einnig spurt um helstu áhyggjuefni íbúa á hverjum stað. Samkvæmt könnuninni hafa íbúar í miðborginni einkum áhyggjur af eignaspjöllum en í Hlíðunum nefndu íbúarnir hraðakstur, þegar sama spurning var lögð fyrir þá.
Á fundinum lýstu nokkrir fundarmanna yfir áhyggjum af hraðakstri í Bólstaðarhlíð og Hamrahlíð og þá komu bílastæðamál einnig við sögu. Á þeim er töluverður skortur en einnig var rætt um þann fjölda bíla sem er lagt ólöglega. Að mati fundarmanna er þetta vandamál til staðar í báðum hverfunum. Egill Bjarnason yfirlögregluþjónn fór ítarlega yfir störf umferðardeildar og Stefán Eiríksson lögreglustjóri kynnti stefnu embættisins og gerði sýnileika lögreglu að sérstöku umtalsefni. Eiður H. Eiðsson svæðisstjóri tók líka til máls og kynnti athyglisverða tölfræði sem sýndi stöðu og þróun mála á svæðinu. Þá var nýr hverfislögreglumaður kynntur til sögunnar en Guðrún Jack mun taka við því hlutverki fljótlega. Á fundinum, sem um tuttugu manns sóttu, varpaði lögreglustjóri fram þeirri hugmynd að halda opinn fund með íbúunum í byrjun næsta árs og var henni mjög vel tekið.
Guðrún Jack og Eiður H. Eiðsson.
Hér sést hluti fundarmanna en þeir höfðu einkum áhyggjur af hraðakstri.