8 Febrúar 2022 11:27
Þar sem að eiginleg leit að flugvélinni TF ABB, flugmanni hennar og farþegum hefur nú breyst úr því að vera umfangsmikil leitaraðgerð í það að verða sérstakt verkefni á afmörkuðum stöðum á Þingvallavatni hefur Lögreglan á Suðurlandi tekið ákvörðun um að framvegis verði eftirfarandi háttur hafður á upplýsingagjöf til fjölmiðla:
- Eins og áður verða ekki gefnar upplýsingar um einstaka rannsóknarþætti eða niðurstöður þeirra.
- Við vettvang á bökkum Þingvallavatns verður sett upp ytri lokun og inn fyrir hana fer almenningur ekki.
- Þar fyrir innan verður sett innri lokun og við hana svæði sem fjölmiðlamenn komast á. Ekki verður sett upp sérstök aðstaða fyrir fjölmiðlamenn og þurfa þeir að vera sjálfbærir með vistir og annað sem að dvöl þeirra við vatnið snýr.
- Fréttatilkynning um aðgerðir og gang þeirra verða gefnar út daglega á lögregluvefnum kl. 17:30 og oftar ef gangur aðgerða gefur tilefni til. Þær verða ekki gefnar með öðrum hætti.
- Uppsetning aðstöðu og búnaðar við Þingvallavatn hefst seinni partinn í dag ef veður og færð leyfa.
Varðandi fréttir um að staðsetning úr farsíma hafi ekki borist stjórnendum aðgerða í tíma er þeim einfaldlega vísað frá sem röngum. Í sameiginlegum aðgerðagrunni björgunarsveita og almannavarna þ.m.t. LHG, lögreglu, sjúkraflutninga, Isavía ofl. er fyrsta vísbending úr farsíma skráð þann 3. febrúar kl. 17:51 Kl. 15:40 þennan sama dag lá fyrir í sama grunni eftir gögnum Isavia að flugleiðin hafi verið um Grímsnesið. Leit með sérstakri vél frá danska hernum var fyrst beint að Grímsnesi og suðurhluta Þingvallavatns. Kl. 17:40 er Þyrla LHG með menn úr séraðgerðasveit í sérstakri leit yfir og í Ölfusvatnsvík.
Formleg staðfesting á símagögnum, sem þegar höfðu verið notuð við skipulagningu leitaraðgerða, fékkst ekki fyrr en síðar frá þar til bærum yfirvöldum erlendis.