20 September 2023 09:20

Útköll lögreglunnar eru margvísleg og hún þarf sannarlega að vera viðbúin öllu. Dæmi um þetta er verkefni við ónefnt hús í Setberginu í Hafnarfirði í gærkvöld, en þar var húsráðendum brugðið þegar eitthvað skall á gluggann hjá þeim með tilheyrandi hávaða. Þegar betur var að gáð reyndist þar vera á ferðinni skarfur, ekki leiðindaskrafur heldur líkast til dílaskarfur. Sá var vankaður eftir höggið og heldur illgjarn þegar átti að huga að líðan hans. Lögreglan var þá kölluð til og mætti hún á vettvang, en í ljósi málsatvika, og ekki síður um tilkynntan málsaðila, var enn fremur ákveðið að kalla til okkar helsta sérfræðing í þessum málaflokki – nefnilega Guðmund Fylkisson aðalvarðstjóra. Hann kom á staðinn, var fljótur að fanga fuglinn og fór síðan með hann og sleppti í náttúrulegri heimkynnum hans við sjávarsíðuna. Síðast þegar við vissum braggaðist skarfurinn vel og virðist ekki hafa orðið meint af „árekstrinum“.