28 Júní 2012 12:00
Kona á þrítugsaldri kom miður sín á lögreglustöðina við Hverfisgötu í morgun og greindi frá því að hún hefði glatað Sony videotökuvél. Hún gerði sér ekki neinar vonir um að vélina væri að finna hjá lögreglunni og kom bara til að fylla út þar til gert eyðublað, líkt og tilheyrir að gera í tilfellum sem þessum. Lögreglumaðurinn sem afgreiddi konuna, sem er útlendingur, áttaði sig hins vegar strax á því að videotökuvél, sem hann móttók klukkutíma áður var örugglega vél konunnar. Svo reyndist líka vera en vélina hafði sómakær borgari fundið á Austurvelli og komið í hendur lögreglu. Það er engum ofsögum sagt að konan var í sjöunda himni þegar hún tók við videotökuvélinni á nýjan leik. Í framhaldinu yfirgaf konan lögreglustöðina og var hún skælbrosandi eftir þessi ánægjulegu málalok.