14 Maí 2007 12:00
Sextíu og níu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina en það er ívið meira en undanfarnar helgar. Í sjö þessara tilfella voru ökumenn ýmist ölvaðir eða undir áhrifum lyfja.
Nokkrir ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur um helgina en í fáeinum tilvikum var um ofsaakstur að ræða. Grófasta brotið framdi 17 ára piltur en bíll hans mældist á 171 km hraða á Vesturlandsvegi. Pilturinn, sem var í kjölfarið sviptur ökuleyfi til bráðabirgða, fékk bílpróf fyrir tæpum þremur vikum.
Þá stöðvaði lögreglan fjóra ökumenn sem allir voru á bílum búnum nagladekkjum. Hinir sömu eiga sekt yfir höfði sér enda er með öllu óheimilt að nota nagladekk á þessum árstíma.