25 Janúar 2007 12:00
Sextán ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Yngstur þeirra er 17 ára piltur sem var stöðvaður á Vesturlandsvegi en bíll hans mældist á 118 km hraða en leyfður hámarkshraði á þeim hluta vegarins er 80. Elsti ökumaðurinn sem lögreglan stöðvaði fyrir hraðakstur í gær er kona á áttræðisaldri en hún var tekin í íbúðargötu í Hafnarfirði. Þar er hámarkshraði 30 en bíll hennar mældist á 48 km hraða.
Tveir ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í gær og nótt. Annar var stöðvaður á Hafnarfjarðarvegi en hinn á Suðurlandsbraut. Þá tók lögreglan allnokkra ökumenn sem ýmist óku gegn rauðu ljósi eða töluðu í síma án þess að notast við handfrjálsan búnað. Einn gerðist sekur um bæði brotin í einu og ljóst að viðkomandi var annars hugar við aksturinn. Hinn sami gat heldur ekki framvísað ökuskírteini þegar eftir því var leitað.
Annar ökumaður hélt kyrru fyrir á gatnamótum þrátt fyrir að grænt ljós logaði gegnt honum og olli með því óþarfa töfum. Svo vildi til að lögreglubíll var í röð ökutækja sem biðu fyrir aftan bíl þessa sama ökumanns. Þegar að var gáð var viðkomandi að tala í síma og virtist allt að því hissa á þessum afskiptum. Ökumaðurinn sagðist ekki hafa hringt úr símanum, heldur hefði verið hringt í hann, rétt eins og það skipti einhverju máli og afsakaði þetta háttalag.
Tuttugu og eitt umferðaróhapp var tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær.