8 Mars 2007 12:00
Sex lögregluhundar með jafnmarga hundaþjálfara eru til taks hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hundarnir, sem þurfa að gangast undir stranga þjálfun, hafa þegar sannað gildi sitt en nýverið fann einn þeirra umtalsvert magn af fíkniefnum sem voru vel og vandlega falin í heimahúsi. Allir hundarnir eru þjálfaðir í leit að fíkniefnum en að auki nýtast þeir til margra annarra starfa. T.d. við að þefa uppi brotamenn á flótta undan lögreglu en þess eru nýleg dæmi að slíkir menn hafa reynt að fela sig í nýbyggingum eða á hafnarsvæðum. Í þeim tilfellum hafa hundarnir líka komið að mjög góðum notum.
Hægt er að kalla hundana til allan sólarhringinn en stefnt er að því að efla þetta starf enn frekar. Lögregluhundar K-9 er nafn hundasveitarinnar en hún tilheyrir eftirlitsdeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.