11 Desember 2024 11:57
Dagana 4. – 8. nóvember síðastliðinn fór námskeiðið Nordic Medic Week 2024 fram hér á landi í umsjón sérsveitar ríkislögreglustjóra. Námskeiðið byggir á samvinnu við erlendar sérsveitir og er hannað til að þjálfa bráðaviðbrögð í sjúkraþjónustu sérsveita með það að markmiði að efla faglegt samstarf og tryggja bestu mögulegu þjónustu.
Sérsveitir frá Svíþjóð, Noregi, Þýskalandi og Bandaríkjunum tóku þátt á námskeiðinu og var áhersla lögð á að skapa raunverulegar aðstæður sem kröfðust ákvörðunartöku undir miklu álagi.
Þátttakendum var skipt í þrjú lið sem tóku þátt í þremur sviðsettum og krefjandi verkefnum á þremur dögum; skotárás í Hvalfjarðarsveit, hryðjuverkaárás á Keflavíkurflugvelli og hnífaárás um borð í Herjólfi. Hvert verkefni tók um fjórar klukkustundir og lék veðrið einnig stórt hlutverk í æfingunum.
Alls tóku 19 manns þátt í námskeiðunum auk 20 leikara og 25 leiðbeinanda. Þátttakendur þurftu að vera sjálfbærir og gæta hóps sjúklinga á meðan aðstæður urðu sífellt flóknari í samræmi við handrit. Nýjar áskoranir komu fram í hverri æfingu, sem dæmi, kviknaði eldur í flugvél á Keflavíkurflugvelli og um borð í Herjólfi auk þess sem sprengingar urðu í Hvalfirði.
Fjölmargar stofnanir tóku þátt í æfingunum; Isavia, Landhelgisgæslan, slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, slökkviliðið á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit, Lögreglan á Vesturlandi, Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu, fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Landspítalinn, Vegagerðin og Rauði krossinn.