15 Október 2007 12:00
Lögreglan á Vestfjörðum hefur nú bæst í hóp þeirra lögregluliða sem bjóða brotaþolum og sakborningum upp á málsmeðferð sem nefnist sáttamiðlun. Eins og heiti úrræðisins ber með sér er hér um að ræða möguleika þar sem reynt er að ljúka kærumálum með sátt málsaðila.
Þetta úrræði byggir á tilraun sem hófst erlendis og hefur verið í þróun í mörgum ríkjum, m.a. í Evrópu. Dómsmálaráðuneytið hefur hrundið af stað tveggja ára tilraunaverkefni sem lýtur að því að reyna þessa málsmeðferð hérlendis, en að þeim tíma liðnum verður árangur verkefnisins metinn og ákveðið hvort úrræðið skuli verða varanlegur hluti refsivörslukerfisins.
Úrræðinu er aðeins beitt ef brotaþoli og gerandi samþykki þessa málsmeðferð, gerandi hafi viðurkennt brotið og að hann hafi ekki áður gerst sekur um alvarleg eða ítrekuð hegningarlagabrot. Tilgangur meðferðarinnar er að fá hinn brotlega til að skilja þau rangindi sem hann hefur viðhaft og fá hann til að friðmælast við brotaþola með það fyrir augum að þeir komist að samkomulagi um málalok.
Að baki sáttamiðlun býr sú grundvallarhugmynd að fólk sé fært um að leysa sjálft úr ágreiningsmálum sínum. Hugmyndafræðin felur í sér að:
· Gerandi og brotaþoli geti sjálfir unnið að lausn ágreiningsmála, náð sáttum og bætt þann skaða sem brotið hefur valdið.
· Hagsmunir brotaþola eru í fyrirrúmi, en jafnframt hugað að hagsmunum geranda og samfélagsins í heild.
· Leitast er við að leiða gerendur á rétta braut og fyrirbyggja frekari afbrot.
· Auka öryggi borgaranna.
· Meðferð mála er skjótari og álagi létt af refsivörslukerfinu.
Með sáttamiðlun er leitað nýrra leiða til að takast á við afbrot og afleiðingar þeirra. Leitast er við að ljúka málum vegna minniháttar brota á einfaldan og fljótlegan hátt og þannig að sýnileg tengsl séu milli hins refsiverða verknaðar og málaloka. Með því er stuðlað að því að koma í veg fyrir frekari afbrot.
Það eru eingöngu sérþjálfaðir lögreglumenn sem koma að þessari vinnu og kallast þeir sáttamenn. Fimm slíkir lögreglumenn hjá embætti lögreglustjórans á Vestfjörðum sátu námskeið í síðustu viku, sem lauk með því að eitt mál var tekið fyrir og lauk því farsællega, eða með sátt milli brotaþola og geranda.
Þrír lögreglumenn á starfsstöðinni á Ísafirði hafa réttindi til að ljúka tilteknum málum með sáttamiðlun, einn lögreglumaður á starfsstöðinni á Hólmavík og einn á starfsstöðinni á Patreksfirði. Lögreglan á Vestfjörðum ber miklar væntingar til þessa tilraunaverkefnis og sér ákveðin sóknarfæri því tengdu, ekki síst fyrir samfélagið á Vestfjörðum.